Landsbankinn hefur nú leyst úr málum allra starfsmanna Spkef eftir samruna við bankann. Með flutningi tæplega 20 starfa í bakvinnslu til Reykjanesbæjar skapast störf fyrir þá starfsmenn sem áður störfuðu við sambærileg störf í höfuðstöðvum Spkef.  Þegar hefur verið leyst úr málum allra starfsmanna í útibúum og afgreiðslum Spkef víðsvegar um landið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.

Af 130 starfsmönnum Spkef eru um 15 sem leitað hafa á önnur mið, þar af nokkrir af yfirmönnum fyrirtækisins.

„Samhliða þessu hefur Landsbankinn lokið umfangsmiklum skipulagsbreytingum á starfsemi í bakvinnslu í höfuðstöðvum sem unnið hafði verið að um nokkra hríð. Þær fela í sér sameiningu deilda til hagræðingar og einföldunar á skipulagi bakvinnslu bankans.  Þessar breytingar snúa m.a. að því að bæta og einfalda ferla og styrkja innra eftirlit og vinnubrögð með það fyrir augum að auka rekstraröryggi. Nokkrir starfsmenn flytjast af þessum sökum til annarra starfa innan bankans og nokkrum sem stutt eiga í starfslok verður boðinn starfslokasamningur,“ segir í tilkynningunni.