Olís hefur ákveðið að í dag og á morgun renni fimm krónur af hverjum lítra til Slysavarnafélagsins Landsbjargar þegar keypt er bensín hjá Olís eða ÓB. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

„Við erum afar stolt og ánægð að styðja við bakið á Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Samtökin hafa innan sinna raða þúsundir sjálfboðaliða sem vinna ómetanlegt starf og eru alltaf til staðar í hvaða veðrum og aðstæðum sem er og koma öðrum til bjargar á ögurstundu. Við vonum að landsmenn verði til taks fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg í dag og á morgun og sýni þeim stuðning,” segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, en hann stendur sjálfur þjónustuvaktina í dag ásamt Jóni Svanberg Hjartarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar, og munu þeir dæla eldsneyti á bifreiðar viðskiptavina á afgreiðslustöð félagsins í Álfheimum.

„Olís hefur um árabil verið mikilvægur samstarfsaðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem einn af aðalstyrktaraðilum samtakanna og hefur styrkt þau með fjárframlögum og veglegum afslætti af eldsneyti og öðrum vörum. Þá hefur Olís boðið upp á sérstaka neyðaraðstoð og eru tilbúnir að opna afgreiðslustöðvar sínar að kvöld- og næturlagi ef björgunaraðgerðir eru í gangi til að björgunarsveitir hafi aðgang að eldsneyti og öðrum búnaði á öllum tímum sólarhringsins. Olís leggur þannig lóð sitt á vogarskálarnar svo leitar- og björgunarstörf gangi sem best að nóttu sem degi og fyrir það erum við afskaplega þakklát. Stuðningur Olís hefur verið afar mikilvægur fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg enda byggist allt leitar- og björgunarstarf félagins á sjálfboðaliðastarfi þeirra sem það stunda. Öflugur stuðningur fyrirtækja og almennings ræður því hreinlega úrslitum þegar kemur að leit og björgun á Íslandi,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.