Til að bregðast við og draga úr áhyggjum erlendra aðila hafa Landsvirkjun og íslenska ríkið gert með sér viðbúnaðarsamning.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun til Kauphallarinnar en samningurinn er með þeim hætti að ef Landsvirkjun hefur ekki nægjanlegt fjármagn til að mæta vaxtagreiðslum eða afborgunum lána mun Seðlabankinn afhenda fyrirtækinu erlendan gjaldeyri og Landsvirkjun afhenda bankanum krónur eða skuldabréf í staðinn.

Fjárhæð samningsins er að hámarki 300 milljónir Bandaríkjadala og rennur hann út 1. júlí 2011.

Í tilkynningunni kemur fram að mikil óvissa hefur ríkt í íslensku efnahagslífi frá falli viðskiptabankanna í október sl.  Á sama tíma hefur verið mikil óvissa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem hefur leitt til þess að matsfyrirtæki hafa lækkað lánshæfiseinkunnir fjölmargra aðila.  Lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins og Landsvirkjunar eru þar engin undantekning og hafa lækkað í BBB- hjá Standard & Poor´s og Baa1 hjá Moody's Investor Service.

Fram kemur að Landsvirkjun hefur haft lánshæfiseinkunn síðan 1998 í því skyni að auðvelda fyrirtækinu aðgang að lánsfé en Landsvirkjun hefur frá stofnun fjármagnað virkjunarframkvæmdir að mestu leyti á erlendum markaði.  Matsfyrirtækin hafa frá upphafi gefið Landsvirkjun sömu lánshæfiseinkunn og íslenska ríkinu.

„Erlendir aðilar hafa nokkrar áhyggjur af kerfisáhættu í íslensku efnahagslífi, m.a. vegna óvissu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum,“ segir í tilkynningunni.

„S&P´s setti lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar á athugunarlista hinn 8. maí sl. og metur horfur neikvæðar.  Í rökstuðningi er einkum lögð áhersla á að óvissa sé um hvort íslenska ríkið muni koma tímanlega til aðstoðar ef fyrirtækið lendir í fjárhagserfiðleikum.“

Þá kemur fram að lausafé Landsvirkjunar er nú um 90 milljónir Bandaríkjadala en að auki hefur fyrirtækið aðgang að erlendu veltiláni.  Að veltiláninu standa fjórtán alþjóðlegar fjármálastofnanir, þar á meðal Barclay's, Citigroup, JP Morgan og Société Générale.

„Landsvirkjun hefur því mikinn aðgang að lausafé í erlendri mynt sem ásamt fé úr rekstri dugar til greiðslu vaxta og afborgana út árið 2010.  Því eru hverfandi líkur á því að reyna muni á viðbúnaðarsamninginn,“ segir jafnfrat í tilkynningunni.