Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's hefur lækkað lánshæfiseinkunn Grikklands um þrjá flokka, úr Ba1 í B1. Frá þessu greinir Bloomberg og mun ástæðan vera sú að áhættan á greiðslufalli ríkissjóðs landsins.

Í tilkynningu Moody's, sem Bloomberg vitnar í, segir að fyrirtækið hafi áhyggjur af innheimtu skatta og framkvæmd boðaðs niðurskurðar á opinberum útgjöldum í landinu. Þessar aðgerðir voru skilyrði fyrir þeim 110 milljarða evra björgunarpakka sem Grikkland fékk frá alþjóðasamfélaginu í fyrra.

Ávöxtunarkrafa grískra ríkisskuldabréfa hækkaði í 12,3% í kjölfar tilkynningar Moody's og sömuleiðis veiktist evran.