Líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hækkuðu laun ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra ráðuneytanna nokkuð ríflega um síðustu mánaðamót í kjölfar nýlegs úrskurðar kjararáðs. Þrátt fyrir að það hafi ekki verið sagt beinum orðum í úrskurðum ráðsins hækkuðu laun aðstoðarmanna einnig til samræmis við laun skrifstofustjóra ráðuneytanna. Spurður hvort aðstoðarmenn ráðherra hafi einnig hlotið launahækkun í kjölfar umrædds úrskurðar staðfestir Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, að svo sé. Hann bendir jafnframt á að aðstoðarmenn njóta sömu kjara og skrifstofustjórar í samræmi við lög um Stjórnarráð Íslands frá árinu 2011.

Í 22. gr. laganna segir orð­rétt að laun og starfskjör aðstoð­armanna ráðherra fari samkvæmt ákvörðun kjararáðs eftir kjörum skrifstofustjóra. Það er því ljóst að aðstoðarmenn ráðherra hafa ekki farið varhluta af ákvörðun kjararáðs og hækkuðu laun þeirra til jafns við laun skrifstofustjóra. Þannig eiga úrskurðir kjararáðs jafnt við um aðstoðarmenn ráð­herra þótt það sé ekki tekið fram með berum orðum í úrskurðum ráðsins.

Hækkun á bilinu 330- 482 þúsund krónur

Laun skrifstofustjóra ráðuneytanna og þá um leið aðstoðarmanna hækkuðu því töluvert um síðustu mánaðamót. Föst yfirvinna þeirra var áður mismikil, og var á bilinu ein til átta einingar á mánuði, en hver eining nam rúmum fimm þúsund krónum fyrir hækkunina. Samkvæmt gögnum kjararáðs fá þeir nú greiddar 22 til 33 einingar á mánuði og er hver eining nú hátt í 10 þúsund krónur.

Föst yfirvinna þeirra hækkar því úr um það bil 55 þúsund krónum í allt að 315 þúsund krónur. Þannig voru laun aðstoðarmanna með fastri yfirvinnu áður á bilinu 837.504 til 891.361 en eru nú á bilinu 1.167.880 til 1.374.252 krónur á mánuði. Hækkunin nemur því á bilinu 330.000 krónum til 482.000 krónum. Þá má jafnframt rifja upp að laun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna, dómara og forstöðumanna ríkisstofnana hækka um 9,3% - afturvirkt frá 1. mars 2015 samkvæmt nýjum úrskurði Kjararáðs síðan í nóvember. Eftir breytinguna eru almennir ráðherrar með 1.257.000 krónur í mánaðarlaun, nema forsætisráðherra sem fær 1.391.000 krónur á mánuði. Við þá upphæð bætist þó jafnframt þingfarakaup þeirra sem einnig sitja á Alþingi.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu undir Tölublöð.