Launadeila lækna og samninganefndar fjármálaráðherra stendur enn yfir. Ekki sér í land í deilunni en eins og kunnugt er gripu læknar til þess ráðs fyrir skemmstu að hefja verkfall til að þrýsta á hið opinbera að verða við kröfum þeirra um 30-36% hækkun grunnlauna. Samninganefnd Læknafélags Íslands (LÍ) hefur þó ekki viljað gefa upp hver heildarlaun lækna eru þegar eftir því hefur verið leitað. Þorbjörn Jónsson, formaður LÍ, neitaði að sama skapi að veita upplýsingar um hver heildarlaun lækna væru þegar hann var inntur eftir því í Kastljósi 27. október síðastliðinn. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lýsti því yfir á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins 1. nóvember síðastliðinn að kröfur lækna í málinu væru óraunhæfar.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala hafa heildarlaun almennra lækna hækkað úr 655.413 krónum á mánuði árið 2006 í 852.400 krónur árið 2013 og heildarlaun sérfræðilækna úr 870.491 krónu í 1.237.081 krónu á sama tímabili. Það er hækkun um 30-42% frá árslokum 2006 til loka árs 2013. Til samanburðar hafa laun opinberra starfsmanna hækkað um 53% á sama tímabili. Laun lækna hafa því hækkað hlutfallslega minna en laun annarra opinberra starfsmanna á þessu tímabili.

Launakröfur samninganefndar LÍ eru að grunnlaun lækna verði hækkuð um 30-36%. Yrði fallist á launakröfur LÍ yrðu heildarlaun 1.133.692 krónur hjá almennum læknum og heildarlaun sérfræðilækna 1.645.317 á mánuði að því gefnu að heildarlaun myndu hækka í réttu hlutfalli við hækkun grunnlauna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .