Launavísitala í mars hækkaði um 2,4% frá fyrri mánuði, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Á sama tíma hækkaði vísitala grunnlauna um 2,6%.

Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,3% og vísitala grunnlauna um 8,1%.

Hækkanir launavísitölunnar og vísitölu grunnlauna í síðasta mánuði eru að mestu leyti raktar til kjarasamninga sem gerðir voru í febrúar á milli Samtaka atvinnulífsins og helstu samtaka launafólks á almennum vinnumarkaði.

Samið var um launabreytingar sem hljóða upp á 3,25% frá og með 1. febrúar síðastliðnum en 3,5% árlega frá 2025 til 2027. Þá mun lágmarkshækkun launa nema 23.750 krónum á ári.