Ríkisendurskoðun hefur lagt fram fjórar tillögur til að fækka ríkisstofnunum og hagræða í opinberum rekstri. Ein af tillögunum er að fækka undirstofnunum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að um þriðjungur ríkisstofnana heyri undir mennta- og menningamálaráðuneytinu. Það eru 53 stofnanir af 156 ríkisstofnunum, en stofnunum á vegum ríkisins hefur hlutfallslega fækkað um 37% á tímabilinu 1998-2021 vegna sameininga, hlutafjárvæðingar og flutnings verkefna til sveitarfélaga.

Af 53 undirstofnunum mennta- og menningarmálaráðuneytisins er um helmingur framhaldsskólar, eða 27 talsins. Í skýrslunni kemur fram að tæplega nífaldur munur er á þeim stærsta og þeim minnsta þegar kemur að fjölda starfsfólks.  Ríkisendurskoðun telur að það séu sóknarfæri hvað varðar stóraukið samstarf og jafnvel sameiningar á framhaldsskólum.

Í skýrslunni segir jafnframt að mikilvægt sé að skoða fjölda og skipulag stofnana undir mennta- og menningarmálaráðuneytisins, með tilliti til einföldunar, hagræðingar og skilvirkni. „Ætla má að fjöldi smárra stofnana sé óhagstæður í rekstrarlegu og faglegu tilliti en líkur eru einnig á að einhverjar þeirra gætu hæglega rúmast innan stærri skipulagsheilda hins opinbera."

Fjórir ríkisreknir háskólar eru auk þess stafræktir hérlendis. Fyrir utan Háskóla Íslands eru það Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum - Hólaskóli. Ríkisendurskoðun leggur til í skýrslunni að kanna skuli möguleika á sameiningu eða auknu samstarfi hjá skólunum þremur.

Vinnuhópur um hagræðingu ríkisstofnana

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið settu saman vinnuhóp síðastliðið vor, sem á að greina hvar tækifæri liggja til einföldunar á stofnanakerfi ráðuneytisins með það að leiðarljósi að það verði einfaldara og skilvirkara. Í skýrslunni segir að sóknarfæri séu til einföldunar á eðlissvipaðra stofnana. Þar má nefna samvinnu um mannauðsmál, fjármálaumsýslu, skjalavistun, persónuverndarmál og upplýsingatæknimál.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið greiðir um 25 milljarða króna til stofnana og félaga sem heyra undir ráðuneytinu. Samningarnir eru 100 talsins og er meirihluti þeirra smáir að stærð. Þannig eru 77 af 100 samningum upp á minna en 100 milljónir króna hver. Þar af eru 26 samningar upp á minna en 10 milljónir króna. Því gefur auga leið, að mati Ríkisendurskoðunar, að fjöldi samninga þyngir mjög eftirlitshlutverk ráðuneytisins.