Lækkandi húsnæðisverð í Bandaríkjunum mun draga úr einkaneyslu almennings og hagvexti sem á eftir að hafa afleiðingar fyrir alþjóðahagkerfið, sagði Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, í ræðu sem hann flutti fyrir hóp bankamanna í gær. Greenspan sagðist einnig sjá vísbendingar um aukinn verðbólguþrýsting í bandaríska hagkerfinu, auk þess sem hann telur að "eðlilegt" ástand eigi enn eftir að nást á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eftir að lausafjárkrísan hófst í ágústmánuði.

Greenspan sagðist ekki taka undir með þeim hagfræðingum sem telja að alþjóðahagkerfið sé ekki jafn viðkvæmt og áður fyrir niðursveiflu í bandaríska hagkerfinu, sökum vaxandi mikilvægis nýmarkaðsríkja á borð við Kína og Indland. Samdráttur í bandarísku efnahagslífi kemur niður á helstu viðskiptaþjóðum Bandaríkjanna, að sögn Greenspan.