Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og segir Reuters fréttastofan að vænlegur skammtur af neikvæðum fréttum frá Bandaríkjunum hafi haft mikil áhrif á markaði í Evrópu. Markaðir lækkuðu þó frá því í morgun en seinni part dags tóku bankar og fjármálafyrirtæki við sér og drógu þannig úr lækkun markaða.

Þannig hækkaði RBS  um 2,2%, Barclays um 3,7% og BNP Paribas um 2% svo dæmi séu tekin.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,7% og hefur lækkað um 9% það sem af er þessum mánuði að sögn Reuters.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,6%, í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,8% líkt og CAC 40 vísitalan í París.

Í Amsterdam stóð AEX vísitalan í stað auk SMI vísitölunnar í Sviss.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,6%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2% og lækkaði þannig mest í Evrópu, annan daginn í röð.