Persónuvernd segir vafa leika á því hvort Þjóðskrá Íslands sé heimilt að afhenda afrit kjörskrárstofna til stjórnmálaflokka. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að innanríkisráðuneytið hafi falið stofnuninni að afhenda stjórnmálaflokkum afrit af kjörskrárstofnum fyrir alþingiskosningar auk lista og límmiða um tiltekna hópa kjósenda, til dæmis þá sem kjósa í fyrsta sinn. Á meðal upplýsinganna sem þar koma fram eru lögheimili, kyn, nafn og kennitala einstaklinga með kosningarétt. Persónuvernd segir að hvergi í lögum sé vikið að afhendingu kjörskrárstofna til annarra en sveitarstjórna og því vafa á því hvort miðlunin sé heimil.

Þá er það metið svo í innanríkisráðuneytinu að að áratugum saman hafi tíðkast að afhenda stjórnmálasamtökum sem hyggist bjóða fram afrit kjörskrárstofna og byggi það á langri og ríkri hefð.

Þá segir Fréttablaðið að bent sé á það í bréfi sem sent var frá innanríkisráðuneytinu til Persónuverndar vegna málsina að í ljósi efasemda Þjóðskrár Íslands muni ráðuneytið kanna við endurskoðun kosningalöggjafarinnar hvort þurfi að kveða á um það með skýrum hætti að afhending gagnanna sé heimil. Því verði þó ekki lokið fyrir sveitarstjórnarkosningar 31. maí.