Bandaríska fjármálafyrirtækið, Merrill Lynch, seldi í dag bréf að verðmæti 6,6 milljarða dollara til hóps fjárfesta sem samanstendur meðal annars af fjárfestingasjóði í eigu ríkissjóðs Kuwait og Mizuho Financial Group í Tokyo. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Með þátttöku Mizuho er brotið blað þar sem japanskir aðilar hafa ekki fjárfest fyrir svo stóra upphæð í bandarísku fjármálafyrirtæki í tvo áratugi, eða síðan Sumitomo greiddi hálfan milljarð dala fyrir 12,5% hlut í Goldman Sachs fjárfestingabankanum árið 1986.

Aðeins mánuður er síðan Merrill seldi að verðmæti 6,2 milljarða dollara til fjárfesta í Bandaríkjunum og í Singapore og virðist því fyrirtækið leita fanga víða um lönd, segir í Vegvísi Landsbankans.

Í vegvísinum segir að Merrill muni greiða 9% arð af verðbréfunum á ári, þar til þau eru breytanleg í hlutabréf eftir 33 mánuði. Fjárfestahópurinn mun fá færri hluti ef bréf Merrill fara yfir 61,31 dollara og fleiri hluti ef þau fara undir 52,40 dollara á hlutinn en hlutabréf fyrirtækisins standa nú í 54,2 dollara.

Búist við 3,2 milljarða dollara tapi

Líklegt er talið að Merrill muni tilkynna um 3,2 milljarða dollara tap á fimmtudag og verður það stærsta tap fyrirtækisins í 93 ára sögu þess, segir í Vegvísi Landsbankans. Heimildir New York Times herma að Merrill Lynch muni afskrifa meira en 15 milljarða dollara vegna taps sem rekja má til ótryggra húsnæðislána, sem er um helmingi meira en fyrirtækið hafði áður spáð.