*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 19. október 2021 16:22

Mesta árshækkun íbúðaverðs í 4 ár

Árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mælist nú 16,6%. Útlit er fyrir frekari hækkanir á þeirri tölu á næstunni.

Júlíus Þór Halldórsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,23% milli mánaða í september og hefur nú hækkað um 16,6% síðastliðna 12 mánuði, sem er mesta árshækkun í 4 ár. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Þjóðskrár, sem tekur vísitöluna saman.

Sérbýli hækkaði um 1,26% en fjölbýli um 1,23%, og er árshækkunin nú komin í 21,1% og 15,2%. Árshækkun sérbýlis hefur aðeins mælst meiri í tvo mánuði síðustu 15 ár, í apríl 2017 þegar hún var 21,6% og september sama ár þegar hún var 21,2%. Leita þarf aftur til ársins 2006 til að finna hærri tölur en það. Árshækkun fjölbýlis var litlu hærri í júní síðastliðnum, 15,3%, en auk þess var hún hærri seinni hluta ársins 2016 og meirihluta næsta árs, og náði hæst 24,4% yfir það tímabil.

Síðustu 6 mánuði nemur hækkunin 9,5% í heild, og fellur talsvert frá því í síðasta mánuði, þegar hún nam 11,8%. Sérbýli hefur hækkað um 14,0% á því tímabili samanborið við 18,1% í síðasta mánuði, og fjölbýli um 8,4% samanborið við 10,1%.

Mánaðarhækkunin sjálf er lægri en hún hefur verið í 5 af síðustu 6 mánuðum, en nokkrar árstíðasveiflur geta verið í hagtölum milli mánaða og í styttri tímabil en ár, sem jafnast út ef horft er á 12 mánaða tímabil.

Annar áhrifaþáttur í hækkun 12 mánaða breytingarinnar er að mánuðirnir sem nú eru að detta út úr þeirri tölu frá í fyrra voru öllu rólegri. Mánaðarhækkunin í september í fyrra var þannig 1%, og hafði aðeins farið yfir það einu sinni það ár.

Sömu sögu er að segja af næstu 5 mánuðum sem næstir detta út. Meðaltal þeirra telur 0,61% árshækkun og enginn þeirra nær 1%. Það er því fyrirséð að haldi hækkanir áfram á svipuðu róli og síðastliðið hálft ár á árstakturinn talsverðar hækkanir inni.