Eik fasteignafélag mun ráðast í miklar framkvæmdir á Glerártorgi á Akureyri á þessu ári með það að markmiði að gera verslunarmiðstöðina hlýlegri og meira aðlaðandi. Þetta kemur fram í Markaðnum á Fréttablaðinu.

Félagið keypti Glerártorg á síðasta ári en verslunarmiðstöðin er í heild nær átján þúsund fermetrar.

„Þessar framkvæmdir munu kosta um eitt hundrað milljónir. Um mikla andlitslyftingu er að ræða fyrir verslunarmiðstöðina. Við erum í samvinnu við arkitekta í Boston sem sérhæfa sig í hönnun verslunarmiðstöðva og hafa mikla sérþekkingu á því sviði,“ segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags, í samtali við Markaðinn.