Hermann Guðmundsson, forstjóri heildsölufyrirtækisins Kemi, segir miklar verðbreytingar í kortunum næstu mánuðina. Hann segir verðhækkanir erlendra birgja vera svo miklar að erfitt sé að hagræða til að koma í veg fyrir verðhækkanir hérlendis.

„Hluti af þessari innfluttu verðbólgu er nú þegar komin til landsins. Við erum að sjá miklar verðhækkanir frá erlendum birgjum og og ég man ekki eftir lægri hækkunartilkynningu en sem nemur 3%. Tveir stórir vöruflokkar hjá okkur hafa hækkað um 70% frá því að við keyptum vörurnar síðast í september.“ segir Hermann í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við þurfum einfaldlega að fara í gegnum alla kostnaðarliði rekstrarins upp á nýtt og reyna að ná fram lækkunum í öllum okkar aðföngum og þjónustu sem við kaupum. Þessar hækkanir hafa því margvísleg áhrif á hagkerfið.“

Hækkun á hráolíuverði leiðir til hærra vöruverðs

Hráolíuverð hefur ekki verið hærra í sjö ár, frá því í október 2014. Brent hráolían hefur hækkað um 13% síðastliðinn mánuð, úr 79 dölum á tunnu upp í 88 dali á tunnu og WTI hráolían hækkað um 15% síðastliðinn mánuð, farið úr 76 dölum á tunnu upp í 87 dali á tunnu. Greiningaraðilar vestanhafs hafa margir hverjir spáð því að olíutunnan gæti farið upp í 100 dali á tunnu.

Hermann segir verðhækkanir á hráolíu valda verðhækkunum í öllum vöruflokkum. „Hráolían hefur verið yfir 80 dollurum á tunnu núna í einhvern tíma og það hefur áhrif á ótal marga vöruflokka þar sem olía er notuð í framleiðsluna. Þar má nefna umbúðir og plast sem framleitt er meðal annars með olíu.“

Sjá einnig: Verðbólgan komin upp í 5,7%

Tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs hækkaði um 0,6 prósentustig og mældist 5,7% í janúar, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar . Verðbólgan hefur ekki mælst meiri síðan í apríl 2012. Greiningaraðilar höfðu spáð 5% verðbólgu og mældist verðbólgan því töluvert umfram spám.

„Það er ljóst að vaxtaákvarðanir Seðlabankans munu ekki hafa mikil áhrif á vöruhækkanir sem eiga sér stað erlendis. Íslenska krónan hefur hins vegar fengið að styrkjast eitthvað að undanförnu sem mildar erlendu hækkanirnar, svo kannski er einhver mótvægisaðgerð sem felst í því,“ segir Hermann.