Eftirspurn eftir veiðileyfum hefur minnkað töluvert frá fyrri árum. Haraldur Eiríksson, markaðs- og þjónustufulltrúi Stangaveiðifélags Reykjavíkur, segir að minnkandi eftirspurn hafi ekki komið niður á sölu. Það skýrist af því að undanfarin fjögur ár hefur mikið borið á umframeftirspurn á veiðileyfum hjá Stangaveiðifélaginu. Flest veiðileyfi sem nú eru í notkun voru seld í fyrra.

„Við seljum veiðileyfi oftast í september og október, þá gengur sala á þeim best. Stangaveiðifélag Reykjavíkur eru félagasamtök en ekki gróðasamtök. Því verðum við að stilla verðinu í hóf,” segir Haraldur. Hann segir að Stangaveiðifélag Reykjavíkur reyni að selja flest veiðileyfin til félagsmanna en þó standi öllum þau til boða. Erfitt hafi gengið að selja óseld veiðileyfi fyrir sumarið.

Salan í haust verður prófsteinn

Í kjölfar þeirrar niðursveiflu sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf að undanförnu hefur mikið borið á niðurskurði. Haraldur segist sjá það glögglega í minnkandi eftirspurn frá fyrirtækjum og bönkum. Lengi hafi tíðkast að fyrirtæki byðu viðskiptavinum og lykilstarfsmönnum í veiðiferðir á sumrin. „Við búumst þó ekki við að sjá neina breytingu að ráði fyrr en næsta sumar. Salan á veiðileyfum fyrir næsta sumar fer fram í haust og verður það ákveðinn prófsteinn,” segir Haraldur.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur mun beina sjónum sínum í auknum mæli til erlendra viðskiptavina ef harðnar frekar á dalnum. „Þegar krónan náði sínum hæstu hæðum þá varð mjög dýrt fyrir erlenda veiðimenn að koma hingað. Nú er hagkvæmara fyrir útlendinga að kaupa sér veiðileyfi á meðan krónan er veik,” segir Haraldur og bendir á að mun hagkvæmara er fyrir t.d. Breta að koma til Íslands að veiða nú en það var í fyrra. Gengisbreytingar hafa gert það að verkum að það er 250 til 300 þúsund krónum ódýrara nú.