Þróunin á gjaldeyrismarkaði undanfarnar vikur ætti að vera sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) að skapi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en eins og kunnugt er kemur sendinefndin til landsins í dag til að hefja fyrstu ársfjórðungslegu endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar íslenskra stjórnvalda og sjóðsins.

Í Morgunkorni kemur fram að krónan hefur styrkst um 17% frá því að millibankamarkaður með gjaldeyri var settur á fót að nýju þann 4. desember og gjaldeyrisviðskipti hófust að nýju ef miðað er við gengisvísitölu.

Á sama mælikvarða hefur krónan styrkst um 12,5% frá ársbyrjun og um 4,3% í febrúar. Í gær styrktist krónan um rúmlega 1% sé miðað við gengisvísitöluna.

Þá kemur fram að gengi krónunnar nú hærra gagnvart helstu gjaldmiðlum en hún hefur verið síðan í október. Evran kostar nú 143 krónur og Bandaríkjadollar 112 krónur.

„Meðal þeirra skilyrða sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur fyrir því að hefja megi afléttingu hamla á gjaldeyrismarkaði og lækkun stýrivaxta er að stöðugleiki hafi náðst á gjaldeyrismarkaði og því er ljóst að þróunin á gjaldeyrismarkaði undanfarið er gríðarlega jákvæð og mikilvæg fyrir framþróun aðgerðaáætlunar AGS og stjórnvalda,“ segir í Morgunkorni.

„Auk þess sem þróun krónunnar ætti að gleðja sendinefnd AGS ættu þær tölur sem birtust í gær um þróun verðbólgu einnig að hafa jákvæð áhrif. Þær sýna að verðbólgan er nú tekin að hjaðna en vísitalan hækkaði um 0,5% sem var mun minna en flestir bjuggust við.“