Danskir fjölmiðlar hafa fylgst grannt með framvindu mála hjá Nyhedsavisen að undanförnu og í Jótlandspóstinum í dag er haft eftir fjölmiðlasérfræðingi hjá Deloitte að Morten Lund geti varla haft mikla trú á framtíð blaðsins.

Gorm W. Flyvholm, hjá Deloitte, segir að í ljósi þess að auðmaðurinn Morten Lund leiti ákaft að nýjum fjárfestum að Nyhedsavisen, í stað þess að leggja sjálfur peninga í púkkið, megi draga þá ályktun að hann hafi innst inni ekki trú á framtíð blaðsins.

„Þegar Morten Lund leitar með logandi ljósi að nýjum fjárfestum er það merki um að hann vill sjálfur ekki nota sína eigin peninga. Það þýðir með öðrum orðum að hann hefur ekki nægilega mikla trú á verkefninu," segir Flyholm.

Flyholm kveðst sjálfur hafa miklar efasemdir um framtíð blaðsins. Það sé bara spurning um hve lengi það haldi þetta út í ljósi mikilla skulda, lágs auglýsingaverðs og ársreikningaskrár sem enn hafi ekki borist til danska fyrirtækjaeftirlitsins.

Flyholm finnur reyndar blaðinu allt til foráttu og segir til að mynda að það hafi ekki gengið að koma blaðinu inn í fjölbýlishúsin, auk þess sem lesendum sé ekkert að fjölga. Lesturinn sé því fjarri því sem upphaflega hafi verið stefnt að, þ.e.a.s. nálægt einni milljón lesenda.

Blaðið er þrátt fyrir þetta mest lesna blað Danmerkur.