Auðkýfingurinn Elon Musk hefur boðist til að kaupa Twitter fyrir 44 milljarða dala, líkt og samið var um í apríl síðastliðnum, samkvæmt heimildum Bloomberg. Hlutabréf í Twitter hækkuðu um meira en 12% eftir að fréttin fór í loftið en stöðvað hefur verið viðskipti með bréf samfélagsmiðlafyrirtækisins.

Musk hefur síðustu mánuði reynt að falla frá kaupunum og sakað Twitter um að gefa ekki upp nægjanleg gögn um fjölda gervireikninga á samfélagsmiðlinum. Stjórn Twitter höfðaði í kjölfarið mál við Musk og fór fram á að hann myndi standa við kaupsamninginn. Til stóð að réttarhöld myndu hefjast 17. október næstkomandi en óvíst er hvort af þeim verði.

Musk samþykkti í apríl síðastliðnum að greiða 54,2 dali á hlut fyrir Twitter. Hlutabréfaverð félagsins hefur verið töluvert undir kaupgenginu eftir að Musk sagði í júní að samkomulagið væri komið á ís. Skömmu síðar sagðist hann ætla að hætta við kaupin. Hluthafar Twitter samþykktu tilboðið á hluthafafundi um miðjan síðasta mánuð.