Dr. Edmund S. Phelps, nóbelsverðlaunahafi og prófessor við Columbia háskóla í Bandaríkjunum, og dr. Pentti Kouri, alþjóðlegur fjárfestir, hafa tekið sæti í nýstofnuðu ráðgjafaráði Askar Capital hf. til næstu þriggja ára segir í frétt félagsins.

Ráðgjafaráð Askar Capital verður skipað alþjóðlegum sérfræðingum og leiðtogum á sviði akademíu, viðskipta og fjármálastarfsemi og verður undir stjórn Karls Wernersonar, stjórnarformanns Milestone. Markmið ráðsins er að leggja grunn að sýn, stækkun og stefnumörkun Askar Capital. Ráðgjafaráðið mun hitta stjórnendur Askar reglulega og taka þátt í stefnumótun. Í kviku og síbreytilegu fjármálaumhverfi mun ráðið styðja við starfshæfni fyrirtækisins. Þá mun ráðið vinna náið með stjórn Askar í að móta sýn og framtíð fyrirtækisins og mun hafa hlutverki að gegna sem fulltrúar gagnvart leiðtogum í fjármálageiranum um allan heim. Meðlimir ráðsins sitja til þriggja ára í senn segir í tilkynningu.

Prófessor Edmund Phelps hlaut nóbelsverðlaun í hagfræði árið 2006 fyrir yfirgripsmikið framlag sitt til hagfræðinnar. Hann lauk doktorsprófi frá Yale háskóla árið 1959 og hefur hann verið McVickar prófessor í hagfræði við Columbia háskóla síðan 1982. Hann hefur m.a. verið fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna, fjármálanefnd öldungadeildarinnar og Seðlabanka Bandaríkjanna til ráðgjafar. Phelps var kjörinn í Vísindaakademíu Bandaríkjanna árið 1981 og er heiðursfélagi og varaforseti American Economic Association. Hann er aukinheldur félagi í American Econometric Society, American Academy of Arts and Science, New York Academy of Science og minningarstofnun John Simon Guggenheim. Hann hefur hlotið heiðursgráður frá fjölda háskóla, svo sem Amherst College (1985), University of Mannheim (2001), Tor Vergata University (2001), Universidade Nova de Lisboa (2003), University of Paris Dauphine (2004), Háskóla Íslands (2004) og Renmin University í Peking (2004).

Dr. Pentti Kouri var fyrsti Finninn sem hlaut styrk til að sækja hinn virta Atlantic College. Eftir útskrift þaðan lauk hann mastersprófi í hagfræði frá Háskólanum í Helsinki árið 1970. Sama ár var hann ráðinn til Alþjóðgjaldeyrissjóðsins, aðeins 21 árs gamall. Þar stundaði hann rannsóknir með Micheal Porter og byggði síðar til með honum Kouri-Porter líkanið. Kouri lauk doktorsprófi frá MIT árið 1974. Hann hefur verið prófessor í hagfræði við Stanford, Yale, Háskólann í Helsinki og New York háskóla. Hann varð síðar þekktur sem alþjóðlegur fjárfestir, einkum á sviði hátækni. Hann hefur setið í stjórn fjölmargra alþjóðlegra stórfyrirtækja, m.a. Nokia. Hann situr nú í stjórn Dia listasjóðsins og Hakia Inc.