Matsfyrirtækið Moody's lækkaði í dag lánshæfiseinkunnir finnska farsímaframleiðandans Nokia um eitt þrep. Lánshæfi á langtímaskuldir fer úr Baa2 í Baa3 en skammtímaskuldir úr Prime 2 í 3. Moody's segir horfur fyrirtækisins neikvæðar og vísar í afkomuviðvörun Nokia þar sem fram kemur að dregið hefur úr sölu á farsímum undir merkjum fyrirtækisins og tekjum þess.

Rekstrarhagnaður Nokia nam 1,8 milljörðum evra í fyrra. Þar af námu tekjur 1,5 milljörðum evra.

Fram kemur í umfjöllun Moody's um Nokia að verði sala á nýju Lumia-farsímunum minni en vænst er þá verði skuldabréf fyrirtækisins sett niður í ruslflokk.

Stephen Elop, forstjóri Nokia, sem nýverið tók við forstjórastólnum hjá Nokia, hefur tekið til í rekstri fyrirtækisins og býst hann við miklu af nýju Lumia-farsímunum sem keyra á Windows-stýrikerfi.