Gengið hefur verið frá sölu á öllu hlutafé Gasfélagsins ehf., sem er helsti innflytjandi á fljótandi gasi og gashylkjum til landsins. Seljendur eru Olíufélagið ehf., Olíuverzlun Íslands hf. og Skeljungur hf. Gasfélagið ehf. var stofnað í núverandi mynd árið 1995. Kaupandi er Ísmyndir ehf., sem eru í eigu Jóns Þorsteins Jónssonar, stjórnarformanns Saxhóls ehf. og Arnar
Arnarsonar fyrrverandi framkvæmdastjóra Gasfélagsins ehf. Að sögn kaupanda er um að ræða einkar spennandi tækifæri með mikla framtíðarmöguleika.

Í tilkynningu frá nýju félagi kemur fram að rekstur Gasfélagsins ehf. hefur gengið vel en mikil aukning hefur verið í gasnotkun hér á landi. Fyrirtækjasvið MP Fjárfestingarbanka hf. annaðist söluna en fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. var ráðgefandi aðili fyrir kaupendur.