Haukur Örn Birgisson hæstaréttarlögmaður og Eggert Páll Ólason héraðsdómslögmaður hafa tekið yfir rekstur Íslensku lögfræðistofunnar.

Haukur Örn stofnaði Íslensku lögfræðistofuna árið 2008 ásamt Einari Huga Bjarnasyni og Jóhanni Hafstein, sem nú hafa yfirgefið eigendahópinn. Eggert Páll gekk til liðs við lögfræðistofuna sem einn af eigendum árið 2012. Áður starfaði Eggert sem yfirlögfræðingur skilanefndar Landsbanka Íslands hf.

Í tilkynningu segir að Íslenska lögfræðistofan hafi frá stofnun sinnt almennri lögfræðiráðgjöf og hagsmunagæslu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir og erlenda aðila. Vaxandi áhersla hafi þó verið lögð á ráðgjöf til fyrirtækja. Fjórir löglærðir fulltrúar starfa hjá fyrirtækinu ásamt þeim Hauki Erni og Eggerti Páli.

Haukur Örn segir í tilkynningunni að þeir Eggert muni byggja á þeim faglega grunni sem til staðar er, jafnframt því sem þeir muni leggja aukna áherslu á ráðgjafarþjónustu við fyrirtæki og fjárfesta. Hann segir að umfang starfseminnar hafi vaxið frá stofnun og verkefnin verði sífellt fjölbreyttari.