Greiningardeild Landsbankans metur Össur á 42,8 milljarða króna, samkvæmt nýju verðmati, sem gefur gengið 111,2 krónur á hlut og telja vænt verð eftir tólf mánuði vera 124,9 krónur á hlut. Gengi félagsins á markaði er 106 krónur á hlut.

?Verðmatskennitölur Össurar eru fremur óhagstæðar, enda litaðar af miklum afskriftum óefnislegra eigna. Leiðrétt V/H miðað við afkomuspá fyrir 2006 er 20,9 og 18,7 miðað við afkomuspá fyrir 2007," segir greiningardeildin og mælir með að fjárfestar haldi bréfum sínum í félaginu en undirvogi þau í vel dreifðu eignasafni.

?Samþætting nýrra rekstrareininga er á áætlun og hagræðingaraðgerðir byrjaðar að skila árangri. Sala á Norður Ameríkumarkaði gekk vel en tekjusamdráttur var í sölu stuðningsvara í Evrópu, vegna erfiðra samskipta við umboðsaðila. Úrbætur í dreifikerfi í Evrópu eru meðal helstu verkefna á næstu misserum," segir greiningardeildin.