„Löggjafinn þarf að búa svo um hnútana að atvinnurekendum verði ekki stungið í fangelsi fyrir að reyna til hins ýtrasta að bjarga sínum rekstri.“ Þetta sagði Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, á fundi Samtaka atvinnulífsins í dag.

Í kjölfar gengishruns krónunnar standa mörg fyrirtæki frammi fyrir því að vera með neikvætt eigið fé. Því til viðbótar er hætta á að fyrirtækin þurfi að glíma við sjóðstreymisþurrð því þau fá ekki greitt frá viðskiptavinum.

Hermann segir að þá geti stjórnendur og stjórnarmenn fyrirtækja orðið lagalega ábyrgir og jafnvel lent í fangelsi fyrir að standa ekki skil á opinberum gjöldum.

„Þessi lög voru sett til að fyrirbyggja að menn væru viljandi að ganga á hagmuni ríkisins. Nú er hins vegar komið  upp neyðarástand. Það þarf að víkja frá þessum reglum, að mínu mati, og tryggja að menn geti róið þennan lífróður með stjórnvöldum án þess að óttast að þeir séu að gera sig að sakamönnum,“ sagði Hermann í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann bendir á að það sé erfitt að fá greitt því bankarnir stundi ekki útlánastarfsemi eins og sakir standa.

Atvinnurekendur með hjartað í buxunum

„Allir atvinnurekendur eru auðvitað dauðstressaðir. Vilja og ætla að reyna að standa í skilum með opinber gjöld og laun en þá kemur upp sú staða að fyrirtæki A borgar ekki fyrirtæki B – því það veit ekki hvort það mun eiga fyrir launum – og fyrirtæki B getur þar af leiðandi ekki borgað C, og svo koll af kolli. Þá kemur upp sama staðan og í alþjóðlegu bankakreppunni: Bankar lána ekki bönkum og fyrirtæki greiða ekki fyrirtækjum. Og þá stoppar þjóðfélagið,“ segir hann og telur nauðsynlegt að stjórnvöld dæli peningum inn í hagkerfið. Það geri aðrar þjóðir.

Hjálpið atvinnulífinu

Það er óásættanlegt, að mati Hermanns, að öll athygli ríkisstjórnarinnar beinist að erlendum vinkli efnahagshremminganna.Það þurfi einnig að huga að hinu innlenda atvinnulífi.

„Ef atvinnulífið stöðvast fær ríkissjóður engar tekjur. Það þýðir ekkert að lengja í húsnæðislánum hjá fólki sem hefur enga vinnu. Atvinnulífið er það tæki sem skapar verðmæti í þessu þjóðfélagi og heldur því gangandi. Það verður hugsanlega að beita óhefðbundnum leiðum til þess að styrkja atvinnulífið um þessar mundir,“ segir hann.

Ríkið stofni lánasjóð atvinnulífsins

Hermann leggur til að ríkið stofni sjóð sem láni til atvinnuskapandi verkefna.

Þá leggur hann einnig til að opinberum framkvæmdum verði flýtt, sem annars hæfust 2009 og 2010. „Þannig gætum við komið mjög mörgum í vinnu strax,“ segir hann.

Þetta mun ekki kosta ríkið mikið, að mati Hermanns; fyrir hverja krónu sem ríkið leggur fram fær það 50 aura til baka í skattgreiðslur.