Máflutningur var í stóra olíusamráðsmálinu í Hæstarétti í morgun. Eins og flestir þekkja varðar málið samráð olíufélaganna Kers, Olíuverslunar Íslands og Skeljungs. Olíufélögin unnu málið fyrir Héraðsdómi en þau kröfðust ógildingar úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá árinu 2005 og endurgreiðslu frá ríkinu á þeim sektargreiðslum er þeim var gert að greiða.

Hæstiréttur óskaði eftir því að málflutningur myndi að sinni einskorðast við framsetningu á málatilbúnaði stefndu og framsetningu og formlegri úrlausn héraðsdóms.

Heimir Örn Herbertsson sækir málið fyrir hönd Íslenska ríksins og Samkeppniseftirlitsins. „Um málsatriðin er að mínu mati ekki ágreiningur,“ sagði Heimir. „Andmælaréttur skiptir því engu máli þar sem hann lýtur að málsákvæðum,“ bætti hann við og vísaði til þess að olíufélögin segja öll að brotið hafi verið á andmælarétti þeirra við rannsókn málsins. Heimir lagði jafnframt áherslu á að þó mál olíufélaganna þriggja hefði verið sameinuð gilti ekki eitt um alla, þar sem aðstæður og varnir félaganna væru ólíkar.

Hið opinbera var dæmt til að endurgreiða olíufélögunum 1,5 milljarð fyrir Héraðsdómi. Var þar fallist á að brotið hefði verið á rétti fyrirtækjanna með samhliða rannsókn samkeppnisyfirvalda og ríkislögreglustjóra.