„Ég er á móti afturvirkum inngripum,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags-og viðskiptaráðherra. Hann bætir við að ekki hafi náðst sátt um afnám verðtryggingar í þverpólitískri þingmannanefnd sem fjallaði um kosti og galla hennar.

Árni Páll var á meðal gesta á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem lauk fyrir stundu. Á fundinum var rætt um ýmsar hliðar efnahagsáætlunar stjórnvalda. Ráðherra sagði ekki hægt að breyta lánasamningum eftir á og benti á að fjárhagsörðugleikar landsmanna væru ofmetnir. Hið rétta væri að álíka stór hópur fólks ætti nú erfitt með að ná endum ná saman og árið 2004, samkvæmt nýbirtri lífskjarakönnun Hagstofunnar.

Þá sagði hann rangt að fólk sem hefði farið sér rólega á árunum fyrir hrun og sýnd ráðdeild fái enga hjálp. Ríkið leggi hönd á bagga í gegnum vaxtabætur.

Á meðal annarra gesta voru Hannes Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins. Þeir voru sammála um að verðtryggingin sé orðin of víðtæk í íslensku fjármálakerfi.

Hannes benti á að þrátt fyrir allar ambögur þá hefði verðtryggingin sína kosti, fyrir innleiðingu hennar hafi sparnaður verið nær enginn.