Eimskip fagnar 100 ára afmæli í dag. Félagið, sem þá hét Eimskipafélag Íslands, var stofnað 17. Janúar árið 1914. Þann dag komu á fimmta hundrað manns saman á stofnfundi í Fríkirkjunni í Reykjavík. Félagið var kallað Óskabarn þjóðarinnar í fjölmiðlum en stofnun þess var álitinn mikilvægur liður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Emil Nielsen var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Fyrstu tvö skip félagsins komu til Íslands árið 1915. Gullfoss kom í apríl og Goðafoss í júní. Á vefsíðu Eimskips kemur fram að í hundrað ára sögu Eimskips hafa átta menn stýrt fyrirtækinu. Þrír voru framkvæmdastjórar en fimm forstjórar. Gylfi Sigfússon hefur verið forstjóri síðan 2008.

Gylfi segir að mikið hafi breyst á þessum 100 árum sem liðin eru frá stofnun félagsins og mikil þróun hafi átt sér stað í flutningum. "Fyrstu skip félagsins voru mun minni en þau sem við erum með í rekstri í dag og þar sem ekkert flug var í boði í þá daga ferðuðust allir með skipum félagsins til útlanda. Skipin þróuðust síðan í að vera einungis flutningaskip þar sem flugið tók við farþegaflutningum. Einnig varð sú breyting að skipin þróuðust í gámaskip sem voru ekki lengur hlaðin með lausavöru sem tók marga daga að losa og lesta í höfnum og inn komu gámakranar sem lyftu gámum til og frá borði. Fyrstu skipin voru gufuskip en þróuðust síðar í olíuknúin skip. Öll tæki hafa síðan þá verið að þróast bæði á landi og á legi og umfang Eimskips hefur snúist frá því að vera einungis sjóflutningafélag í alhliða flutningafélag," segir Gylfi. Þá hafi tölvuvæðingin hin síðustu ár breytt miklu.

Gylfi segir að hjá fyrirtækinu séu framundan verkefni sem snúi að því að byggja frekar upp flutningakerfi þess á Norður-Atlantshafi og víkka út þjónustuframboðið á heimamarkaði. „Við þurfum að vinna að dreifingu áhættunnar þar sem of stór hluti veltu okkar er tengdur Íslandi, eða um 50%,“ segir Gylfi aðspurður um það hvað sé á döfinni hjá fyrirtækinu á næstunni. „Ef horft er til framtíðar og byggt á spám um hlýnandi loftslag þá tel ég að það verði mikil gróska í löndum er liggja við Norður-Atlantshaf í tengslum við ýmsa iðnaðarframleiðslu, fiskeldi, lífræna ræktun og fleira. Þjónusta við olíuiðnaðinn, aukin hafnarstarfsemi og þjónusta við margvíslegar gerðir skipa sem sigla í kringum landið. Siglingar munu hefjast í gegnum Norðurheimskautið og ásókn Asíuþjóða verður í auðlindirnar hér á Norðurslóðum," segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.