Össur hf. hefur lokið við lækkun hlutafjár á aðalmarkaði Nasdaq. Hlutaféð var í gær lækkað um 7.456.755 hluti og lækkaði skráð hlutafé því úr kr. 453.750.000 í kr. 446.293.245 að nafnverði. Eftir lækkunina á félagið 4.650.000 hluti í sjálfu sér.

Tilgangurinn með gjörningnum var að koma fjármunum til hluthafa. Félagið hafði tilkynnt um þessi áform sín 12. mars síðastliðinn. Áður hafði félagið keypt 9.863.578 hluti í sjálfu sér á genginu 364, sem jafngilti því 3,59 milljörðum króna.

„Ástæðan fyrir þessu er að við erum í þeirri skringilegu aðstöðu að íslensk lög gera það að verkum að við getum ekki gert þetta með öðrum hætti. Við vildum helst gera þetta úti á markaði og kaupa þetta bara af markaðnum, en íslensku ákvæðin gera það ómögulegt,“ sagði Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, í samtali við Viðskiptablaðið 17. nóvember síðastliðinn.