Fjármálaeftirlitið (FME) var í síðustu viku dæmt til að greiða Ingólfi Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga, 7 milljónir króna vegna fjártjóns, eina milljón í miskabætur og 900 þúsund í málskostnað. Samtals eru þetta 8,9 milljónir. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Stjórn FME fundaði í gær en engin ákvörðun var tekin um áfrýjun. Ingólfur hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hann áfrýi.

„Ég hef fengið ótrúleg viðbrögð eftir að dómurinn féll meira að segja frá fólki sem ég þekki ekki,“ segir Ingólfur. „Það hafa margir hvatt mig til þess að áfrýja og reyna að fá hærri bætur en ég hef sjálfur ekki tekið neina ákvörðun enn sem komið er. Ég hélt að þessu væri nú lokið en eftir tilkynningu sem birtist á vef FME í gær er ég hugsi. Þar er verið að ýja að því að ég sé einn af þeim sem hafi stuðlað að hruninu 2008 sem er eins fjarri raunveruleikanum og mögulegt er. Þá er álit umboðsmanns Alþingis sem FME vísar til ekki tengt mér en hann hefur í tvígang tekið undir undir kvartanir mínar vegna stjórnsýslu FME. Mér sýnist eins og FME hafi því miður lítið lært af þessu máli. Að gefnu tilefni vil ég ítreka enn og aftur að ég hef aldrei verið undir rannsókn hjá sérstökum saksóknara. Ég hef eytt síðustu þremur og hálfu ári í að verja mitt mannorð og nú þegar dómur númer tvö liggur fyrir hefur enginn séð ástæðu til að biðja mig afsökunar á því að ég var sviptur starfi að ósekju og röng og meðandi ummæli birt um mig í tvígang á vefsíðu stjórnvaldsins.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .