Atvinnuveganefnd Alþingis lagði á dögunum frumvarp, að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um breytingu á raforkulögum. Frumvarpið felur í sér að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lögin, sem er ætlað að tryggja framboð forgangsraforku á heildsölumarkaði til notenda annarra en stórnotenda.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að mikil umframeftirspurn hafi verið eftir raforku hérlendis á undanförnum áratugum og nýtt orkuframboð ekki haldið í við aukna eftirspurn.

Brýnt sé að tryggja raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja en vísað er til þess að komið hafi til raforkuskerðinga og á tímabili hafi í raun orkuöryggi heimila og smærri iðnaðar verið ógnað.

Þá kemur fram að Landsvirkjun hafi sent erindi til Orkustofnunar þann 11. Október síðastliðinn þar sem fram kom að grípa þyrfti til skerðinga í lok árs 2023 og á árinu 2024 ef vatnsstaða miðlunarlóna myndi ekki breytast til hins betra. Þá hafi Landsvirkjun upplýst að beiðnir sölufyrirtækja um kaup á grunnorku væru umfram framboð.

„Sambærileg staða kom upp árið 2022 sem leiddi til þess að viðskiptavef Landsvirkjunar var lokað og áttu sölufyrirtæki sem selja inn á smásölumarkað í erfiðleikum með að útvega sér raforku. Flutningsfyrirtækið Landsnet átti einnig í erfiðleikum með að afla raforku vegna flutningstapa,“ segir í greinagerðinni.

„Orkuöryggi þjóðarinnar er margþætt langtímaverkefni og á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis er unnið að lagabreytingum sem hafa þann tilgang að tryggja orkuöryggi almennings. Slík vinna er flókin og tekur tíma í mótun og innleiðingu. Sú staða sem nú er komin upp kallar hins vegar á aðgerðir þegar í stað.“

Í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðarákvæðið gildi til 1. janúar 2026.

Spjótum beint að Samfylkingunni og Vinstri grænum

Fyrsta umræða um málið fór fram á Alþingi síðastliðinn miðvikudag. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og framsögumaður nefndarinnar, sagði að ef ekkert yrði gert væri ljóst að stjórnvöld skorti úrræði til að forgangsraða orku sem er í boði til heimila og minni fyrirtækja.

Áhersla væri lögð á að frumvarpið nái fram að ganga fyrir lok þessa árs en það væri ekki þar með sagt að frumvarpið myndi ekki taka breytingum þar sem víðtækt samráð yrði haft.

„Með öðrum orðum, orkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja og stofnana, samfélagslegra mikilvægra stofnana yrði ógnað og hætta væri á að ekki væri hægt að tryggja raforku til íslenskra heimila. Það er því talið mikilvægt að tryggja raforkuöryggi til þessara aðila og raforkukerfið á Íslandi er uppselt,“ sagði Óli Björn.

Flokksbróðir Óla og fyrrverandi ráðherra, Jón Gunnarsson, tók einnig til máls en hann var harðorður í sínu máli og sagði það lengi hafa legið fyrir í hvað setefndi. Gagnrýndi hann til að mynda Samfylkinguna og Vinstri græn fyrir tafir í virkjanamálum.

„Það er fyrst og fremst þingflokkur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem ber ábyrgð á þessari stöðu, sagan skrifar það,“ sagði Jón.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, greip meðal annars boltann á lofti og spurði Jón í ljósi fullyrðinga hins síðarnefnda um Vinstri græn hvort að hann teldi það raunhæfan möguleika að ríkisstjórnin kæmist eitthvað áfram þegar kemur að framleiðslu á nýrri grænni orku og flutningskerfi.

„Nei, ég er ekki bjartsýnn,“ svaraði fyrrum ráðherrann en bætti þó við að möguleiki fælist í því að grípa til neyðarráðstafanna, líkt og í umræddu frumvarpi.

Málið gekk til atvinnuveganefndar að umræðu lokinni. Nefndin sendi á fimmtudag umsagnarbeiðnir til fjórtán samtaka og fyrirtækja og er umsagnarfrestur til 7. desember næstkomandi.