Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, opnaði vefinn Launaskil.is formlega í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í dag.

Það var frumkvöðlafyrirtækið ReonTech sem hannaði og þróaði vefinn en Launaskil.is er fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í tilkynningu segir að markmið Launaskila er að einfalda skil á launatengdum gjöldum þannig að sjálfsstætt starfandi einstaklingar geti einbeitt sér að því sem mestu máli skiptir. Með nokkrum einföldum skrefum er hægt að skila öllum gjöldum á réttan stað og krafa stofnast í heimabanka fyrir þeim gjöldum sem standa skal skil af. Launaskil.is gerir notendum kleift að skila staðgreiðslu af tekjum til ríkisskattstjóra, skila lögbundnum lífeyri og viðbótarlífeyri til lífeyrisjóðanna, skila stéttarfélagsgjöldum til stéttarfélaga, skila virðisaukaskatti af tekjum og halda utan um uppsafnaðan persónuafslátt og ferlið tekur um eina mínútu í framkvæmd.

Fyrirtækið ReonTech var stofnað árið 2011 og hefur frá upphafi verið staðsett á einu af frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Starfsmenn þess eru um 12 talsins og teymið samanstendur af einstaklega hæfileikaríkum og metnaðarfullum einstaklingum. Í starfsmannahópnum eru til að mynda þeir einu sem útskrifast hafa úr tölvunarstærðfræði frá HR og báðir þeirra eru á forsetalista skólans.