Útlit er fyrir 30 milljarða króna halla á ríkissjóði á þessu ári, að mati Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra. Hann sagði í ræðu sinni um störf þingsins eftir munnlega skýrslu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra nokkur atriði skýra að áætlanir fyrri ríkisstjórnar hafi ekki staðist. M.a. hafi hagvöxtur að hluta reynst veikari en vonast var til. Hann boðar nýja tíma með nýrri ríkisstjórn.

„Við ætlum að loka fjárlagagatinu, örva fjárfestingu og byggja undir getu okkar sem við getum verið sammála um að þurfi að styrkja, s.s. á heilbrigðissviði, stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki og gera Ísland að frábærum fjárfestingarkosti fyrir erlenda aðila,“ sagði hann og lagði áherslu á aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni skila því að samkeppnishæfni landsins batni.

Bjarni sagði mikilvægt að hafa plan á borð við það sem hann boðaði:

„Á meðan við erum ekki með neitt plan þá munum vð á endanum rekast á vegg og menn upplifa það sem í daglegu tali nefnist hrun.“