Við höldum okkar áætlunum og höfum gert allt síðastliðið ár og það er ekkert sem bendir til annars en að við náum að halda áætlun á þessu ári. Það er þó mjög erfitt, og hefur verið, að halda rekstrinum innan fjárlaga. Óvissuþættir eru margir og þetta eru árin eftir mikinn niðurskurð. Við höfum minnkað spítalann um rúm 18% á um átján mánuðum og erum að veita nokkurn veginn sama þjónustumagn, þótt við höfum breytt þjónustunni aðeins. Þá þurfum við auðvitað að vera tánum til þess að missa ekki frá okkur þennan niðurskurð og þá hagræðingu sem við höfum náð. Það er að mörgu leyti gott en erfitt og mikið álag á starfsfólki,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítala-Háskólasjúkrahúss (LSH) en hann var skipaður í starf forstjóra í október sl. eftir að hafa verið starfandi forstjóri um nokkurt skeið.

Björn hefur á undanförnum árum þurft að takast á við erfiða hagræðingu á spítalanum en að hans sögn er rekstrarstaðan nú góð. Aðspurður bætir hann því við að starfsumhverfismælingar hafi sýnt að starfsfólk spítalans meti vinnuálagið ekki meira en það var á árunum fyrir hrun. Til samanburðar séu mælingar frá árunum 2006 og 2008. Hann segir álagið einnig sveiflast á milli árstíða. Á veturna sé almennt mun meira að gera enda gangi flensur jafnan þá auk þess sem spítalinn sé í fullri starfsemi og unnið sé að því að stytta biðlista. Aðspurður hvort niðurskurðurinn hafi komið á sama tíma og þjónustuþörfin hafi eykst, sem t.d. gæti komið fram í formi lengri biðlista, segir Björn svo ekki vera. „Biðlistar hafa ekki lengst svo neinu nemi nema í einni sérgrein sem eru bæklunarskurðlækningar, og er þá sér í lagi um að ræða gerfiliðaaðgerðir. Það hefur aðeins lengst núna undanfarna 2-3 mánuði á biðlista eftir hjartaskurðlækningum en það er ástand sem við ráðum við og náum að rétta af kúrsinn á næstu 2-3 mánuðum. Biðlistarnir eftir bæklunarskurðlækningunum eru þó mikið stærra mál og hafa verið viðvarandi vandamál í gegnum tíðina en við erum að reyna að auka framleiðsluna þar svo hægt sé að vinna á biðlistunum eins mikið og hægt er. Slæmir liðir eru sjúkdómur sem fólk fær á efri árum og þjóðin er hægt og sígandi að eldast og við erum að fá inn stóra árganga á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum. Við erum samt að keppast við að ná í halann á okkur,“ segir hann.

Viðtal við Björn Zoëga er í Viðskiptablaðinu. Þar fjallar hann nánar um hagræðingarnar, nýjan spítala og tækjakost spítalans.