Íslenska ríkið var í dag dæmt til að greiða fyrirtækinu Hópbílaleigunni ehf. 275 milljónir króna vegna þess að gengið var framhjá fyrirtækinu þegar sérleyfisakstur á suðurlandi og suðurnesjum var boðinn út. árið 2005.

Í janúar fjallaði Viðskiptablaðið ítarlega um deilur Hópbílaleigunnar og Vegagerðarinnar. Samningurinn átti að vera til þriggja ára og hefur Hópbílaleigan þegar unnið dómsmál fyrir Hæstarétti þar sem félaginu voru dæmdar bætur upp á 249 milljónir króna, sem gera áttu fyrirtækið jafn sett og ef samið hefði verið við það. Í útboðinu var miðað við þriggja ára samningstíma, með ákvæði um framlengingu til tveggja ára. Málið, sem lauk nú í dag í héraði, snerist um þessa framlengingu.

Kemst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu í þessum dómi að ekkert bendi til þess að Hópbílaleigan hefði ekki fengið framlengingu, ef samið hefði verið við fyrirtækið í upphafi eftir upphaflegt útboð. Hefur Hópbílaleigunni því alls verið dæmdar bætur upp á 524 milljónir króna vegna útboðsins.