Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Ekki liggur fyrir um seinni legg fyrsta skrefs í afnámi gjaldeyrishafta, sem Seðlabanki Íslands kynnti í morgun. Sá leggur snýst um að selja lífeyrissjóðum löng verðtryggð ríkisbréf gegn greiðslu í gjaldeyri. Í áætlun Seðlabankans um afléttingu hafta er talað um þennan seinni legg á þeim nótum að hann muni fara fram í samhengi við þann fyrri, og því athyglisvert að ekkert skuli enn liggja fyrir um tilhögun eða tímasetningu hans.

Þetta segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka í dag þar sem fjallað er um útboð Seðlabankans. „ Í bili er því staðan sú að Seðlabankinn mun að öllum líkindum leggja til andvirði 15 ma.kr.  í gjaldeyri, á því gengi sem tekin tilboð hljóða upp á, úr gjaldeyrisforða sínum.

Heildarstærð forðans var, samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum, 759 ma.kr. í apríl, jafnvirði u.þ.b. 4,7 ma.EUR. Bróðurpartur forðans er hins vegar tekinn að láni með einum hætti eða öðrum. Nettó skammtíma gjaldeyrisstaða var þannig 207 ma.kr. (1.3 ma.EUR) um síðustu mánaðamót. Ljóst er því að Seðlabankinn hefur takmarkaða burði til að selja gjaldeyri úr forðanum nema ná sambærilegum gjaldeyri til baka með einum eða öðrum hætti fyrr en síðar,“ segir Greining. Að mati hennar er lykilatriði að einhver mynd koist á þann hluta þessa skrefs sem snýr að lífeyrissjóðunum.


Umfjöllun Greiningar Íslandsbanka um útboð Seðlabankans:

„Eftir nokkra bið er nú loks að koma mynd á fyrsta skref í afnámi gjaldeyrishafta samkvæmt áætluninni sem kynnt var fyrir tveimur mánuðum síðan. Seðlabankinn tilkynnti í morgun um útboð þar sem bankinn býðst til að kaupa 15 ma.kr. af erlendum krónueigendum, og þeim innlendu aðilum sem hafa átt krónueign í erlendum bönkum samfellt frá 28.nóv. 2008, gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri. Fyrirvari er settur um að niðurstaðan geti orðið hærri eða lægri fjárhæð, eða jafnvel að öllum tilboðum verði hafnað.

Útboðið verður með þeim hætti að þeir sem fá samþykkt tilboð sín fá þau kjör sem tilboðið hljóðaði upp á, öfugt við 'eitt verð fyrir alla' tilboðafyrirkomulagið sem hefur t.d. undanfarið verið reglan í útboðum Lánamála. Fer útboðið fram þann 7. júní næstkomandi. Niðurstaða þess liggur því fyrir við næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 15. júní næstkomandi.

Lánamál ríkisins tilkynntu í kjölfarið að þau byðust til að kaupa stutt ríkisbréf (RIKB11, -12 og -13) og ríkisvíxla af þeim þátttakendum sem hafa samþykkt tilboð skv. ofangreindu upp á vasann. Þau bréf sem þátttakendur í útboðinu þurfa að losna við munu því ekki fara í gegnum skuldabréfamarkað heldur kaupir ríkissjóður þau til baka, og greiðir væntanlega fyrir af viðskiptareikningi sínum í Seðlabanka. Sá reikningur stóð 134 ma.kr. í apríllok og er því af nokkru að taka. Krafan sem Lánamál bjóða er í takti við kröfu á markaði undanfarið.

Ekki er sopið kálið...
Ekkert liggur fyrir um seinni legg þessa fyrsta skrefs í afnámi gjaldeyrishafta. Sá leggur snýst um að selja lífeyrissjóðum löng verðtryggð ríkisbréf gegn greiðslu í gjaldeyri. Í áætlun Seðlabankans um afléttingu hafta er talað um þennan seinni legg á þeim nótum að hann muni fara fram í samhengi við þann fyrri, og því athyglisvert að ekkert skuli enn liggja fyrir um tilhögun eða tímasetningu hans.

Í bili er því staðan sú að Seðlabankinn mun að öllum líkindum leggja til andvirði 15 ma.kr.  í gjaldeyri, á því gengi sem tekin tilboð hljóða upp á, úr gjaldeyrisforða sínum. Heildarstærð forðans var, samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum, 759 ma.kr. í apríl, jafnvirði u.þ.b. 4,7 ma.EUR. Bróðurpartur forðans er hins vegar tekinn að láni með einum hætti eða öðrum. Nettó skammtíma gjaldeyrisstaða var þannig 207 ma.kr. (1.3 ma.EUR) um síðustu mánaðamót. Ljóst er því að Seðlabankinn hefur takmarkaða burði til að selja gjaldeyri úr forðanum nema ná sambærilegum gjaldeyri til baka með einum eða öðrum hætti fyrr en síðar.

Mikilvægt að klára seinni hálfleik

Það er að mati okkar lykilatriði að einhver mynd komist fyrr en síðar á þann hluta þessa fyrsta skrefs sem snýr að lífeyrissjóðunum. Lífeyrissjóðirnir eru með þessum viðskiptum að láta eftir hluta gjaldeyriseigna sinna, sem þeir munu að öllum líkindum ekki geta aukið við að nýju á næstu árum, því í áætlun Seðlabankans er talað um að sjóðirnir muni líklega sæta meiri takmörkunum á erlendum fjárfestingum en aðrir fjárfestar á seinni stigum haftaafléttingar. Sjóðirnir vilja því skiljanlega fá nokkuð fyrir sinn snúð, og til samanburðar var undirliggjandi gengi í Avens-viðskiptum þeirra við ríkissjóð/Seðlabankann í fyrra u.þ.b. 220 kr. á evruna. Jafngildir það 38% hærra krónuverði fyrir evruna en raunin var á innlendum markaði á þeim tíma. Áætlaðar krónueignir erlendra aðila, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka, eru nú 465 ma.kr. og erlendar eignir lífeyrissjóða námu í lok mars 483 ma.kr. “