Ýmislegt bendir til þess að vopn sem íslenskir sprengjusérfræðingar fundu í Írak árið 2004 hafi innihaldið sinnepsgas eins og haldið var í fyrstu, en þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi.

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir í samtali við fréttastofu RÚV að bandarísk stjórnvöld skuldi Íslendingum skýringar á því að fréttir hafi á sínum tíma gufað upp þegar vopnin fundust. Segir hann jafnframt að blekkingum hafi verið beitt.

Halldór segir ljóst að Bandaríkjamenn eigi sér nokkuð skrautlega sögu eins og margar aðrar þjóðir en þeir séu nú voldugasta þjóð í heimi. „Þeir voru eitt sinn bandamenn Saddams Husseins í stríðinu gegn Írak og ég get svo sem alveg trúað því núna að þeir hafi viljað hylma yfir vegna þess að þessi vopn komu frá bandarískum aðilum. Maður lét sér ekki detta það í hug á þessum tíma,“ segir Halldór í samtali við RÚV.

Þá segir Halldór að bandarísk stjórnvöld skuldi Íslendingum skýringar og væntir hann þess að íslensk stjórnvöld fari fram á þær. „Þetta er auðvitað ekkert annað en blekking ef þetta reynist satt og það er nauðsynlegt að Bandaríkjamenn geri grein fyrir sínum dyrum.“