Framleiðsla hófst að nýju um síðustu helgi í Sementsverksmiðjunni á Akranesi eftir fjögurra mánaða stopp. Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóri segir að stoppið hafi verið talsvert lengra en áætlað var vegna samdráttar á byggingariðnaði.

„Við vorum að bregðast við samdrætti með því að stoppa í þetta langan tíma. Um leið vorum við að ganga á birgðir þar sem við áttum nóg til af sementi."

Gunnar segir að nú sé framleitt til að eiga sement í þau verkefni sem enn eru í vinnslu í landinu. Þar þarf m.a. sement í gerð Héðinsfjarðarganga á Norðurlandi og Óshlíðarganga fyrir vestan. Þá þarf líka sement í álversframkvæmdir í Helguvík, í Tónlistarhúsið í Reykjavík og Háskólann í Reykjavík.

Þá nefnir Gunnar verkefni á vegum Vegagerðarinnar í brúargerð og annað. Segir hann þetta þó mun minni umsvif en undanfarin ár og almenna íbúðarhúsabyggingar séu nú nánast alveg í frosti.

„Það voru um 120.000 tonn sem við seldum af sementi í fyrra. Salan það sem af er þessu ári er um 20.000 tonn, eða um 50% af því sem við seldum á sama tíma í fyrra."

Gunnar segir að ekki hafi verið gripið til uppsagan í verksmiðjunni, heldur sé hún keyrð á lágmarksmannskap og kallaðir til verktakar til að mæta álagstoppum og í viðgerðir. Hins vegar hafi starfsmenn verksmiðjunnar verið nýttir til að sinna viðhaldi í stoppinu.

Hann segir að ekki sé um það að ræða að keyra verksmiðjuna á hálfum afkostum eftir að hún sé á annað borð komin í gang. Ofninn sé keyrður 24 tíma á sólarhring þar sem framleidd eru um 320 tonn af gjalli. Lítið sé hægt að hafa áhrif á það og takamarka afköstin. Ef ekki rætist úr í þjóðfélaginu sé viðbúið að það þurfi að stoppa aftur eftir einhvern tíma.

„Þetta er auðvitað ekki nógu bjart útlit. Atvinnulífið höktir vægast sagt. Við reynum þó að sinna þeim verkum sem enn eru í gangi," segir Sigurður.