„Ég er enginn skjaldsveinn Davíðs Oddssonar. Samt man ég vel eftir ítrekuðum viðvörunum hans til fólks og fyrirtækja um að taka ekki lán í öðrum gjaldmiðli en þeim, sem það hefði tekjur í."

Þetta segir Sighvatur Björgvinsson, fv. ráðherra, í grein í Fréttablaðinu í dag en Sighvatur skrifaði um helgina grein undir fyrirsögninni „Sjálfhverfa kynslóðin á sviðið“ sem vakið hefur mikla athygli síðustu daga.

Eins og búast mátti við vakti fyrri greinin þó nokkra athygli en þar fjallaði Sighvatur um þá kröfu sem ákveðnir hópar samfélagsins halda uppi um skuldaleiðréttingu á kostnað annarra, m.a. lífeyrisþega. Í greininni í dag fjallar Sighvatur um sama mál en með ítarlegri hætti.

Sighvatur spyr m.a. í grein sinni í dag hvort að einhver hafi tekið mark á þeim ráðleggingum sem minnst var á hér í upphafi, þ.e. taka ekki lán í öðrum gjaldmiðli.

„Var það fyrr en fólk fór að tapa á því að fylgja ekki ráðleggingunum sem upphófst umræða um að slík lán væru ólögleg? Laug ég því?“ spyr Sighvatur í grein sinni.

„Ég sagði í greininni að sextán þúsund Íslendingar, flestir af sjálfhverfu kynslóðinni, hefðu verið komnir á vanskilaskrá fyrir hrun vegna þess að þeir lifðu langt um efni fram. Laug ég því?“

Þá segist Sighvatur sjálfur vera að greiða síðustu afborganirnar verðtryggðu láni þeirra hjóna vegna húsbyggingar þeirra.

„Enginn hefur gefið okkur þá eign. Það, sem bjargaði okkur þegar verðbólgan óx upp í háa tveggja stafa tölu – sem sjálfhverfa kynslóðin hefur aldrei séð – var verðtryggingin,“ segir Sighvatur.

„Hennar vegna var greiðslubyrðinni velt yfir á síðari tíma, sem ella hefði orðið okkur óbærileg. Sjálfhverfa kynslóðin vill hins vegar að fólk láni henni peninga án þess að geta fengið andvirði lánsins aftur til baka. Með öðrum orðum – að aðrir gefi henni peninga. [...] Aldrei kom mér eða minni kynslóð til hugar að segja að reglulegt gengishrun íslensku krónunnar í okkar tíð væri „forsendubrestur" og að þess vegna ættu aðrir Íslendingar að borga. Nú krefst „sjálfhverfa kynslóðin" slíks.“

Hér má sjá grein Sighvats í heild sinni.