„Ég er ekki búinn að átta mig á hverju þetta byggir en það eina sem ég get sagt á þessari stundu er að þetta kemur mjög á óvart,“ segir Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, í samtali við mbl.is . Hann var í morgun dæmdur í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur, en þar af eru níu mánuðir skilorðsbundnir.

Saksóknari hafði farið fram á sex ára fangelsisrefsingu í málinu, en ljóst er að ákvörðuð refsing nemur ekki nema litlum hluta af því. „Mín tilfinning er sú að þetta sé einhvers konar friðþægingardómur vegna þess að allir í málinu eru saklausir,“ segir Sigurjón jafnframt. Hann segir enga ákvörðun hafa verið tekna um áfrýjun.