Tvö gulleitarfyrirtæki, sem bæði eru undir íslenskri forystu, hafa verið í fréttum síðustu daga. Annars vegar er um að ræða fyrirtækið Iceland Resources þegar það fékk leyfi til fimm ára til leitar að gulli og öðrum málmum, á 1.013 ferkílómetra svæði á Tröllaskaga.

Hins vegar er um að ræða fyrirtækið Alopex Gold, sem fékk tæplega 7 milljónir kanadadala, eða sem jafngildir um 580 milljónum íslenskra króna, í hlutabréfaútboði í Toronto. Eldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Alopex Gold, segir fjármagnið sem nú fékkst verða nýtt til að staðsetja gullæðina sem félagið fann út frá aflagðri námu sem félagið á.

„Fyrir ári síðan vorum við að taka sýni utan í fjallinu til að reyna að finna gullæð sem við töldum vera framlengingu á æðinni í námunni,“ segir Eldur en félagið sem átti námuna fyrir hafði hætt starfsemi.

„Úr námunni voru unnin einhver tíu tonn af gulli, en svo voru þeir ekki með nægilegar boranir fyrir framan sig eins og það er kallað og vissu því ekki hvernig hún lá. Leitin að æðinni var tveggja ára verkefni, en við fundum hana þar sem hún kom út úr fjallinu hinum megin, í um kílómetrafjarlægð frá námuendanum. Jarðfræðirannsóknafyrirtækið SRK hefur reiknað út mögulegan gullforða upp á 1,2 milljónir únsa í æðinni.“

Miðað við núverandi heimsmarkaðsverð á gulli er verðmæti þess um 1,5 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 160 milljarðar íslenskra króna. Eldur segir boranirnar sem nú eru í gangi ætlaðar meðal annars til að staðfesta þetta magn, en þær fylgja mjög stöðluðum aðferðum og eru upplýsingarnar úr því svo nýttar til frekari hlutabréfaútboða.

„Þess vegna erum við með skráð félag, því markaðurinn þekkir þetta ferli nokkuð vel. Í framhaldi af því getum við farið að vinna inni í fjallinu á næsta ári,“ segir Eldur en félagið mun þá þurfa að fara í annað hlutafjárútboð. „Þá munum við halda áfram að bora út námuna og staðsetja æðina þeim megin frá, og taka stórt sýnishorn, kannski svona 20 þúsund tonn, sem er þá fyrsta skrefið í framleiðslu á gulli úr námunni.“

Stærsti hluthafinn í félaginu er bandaríski sjóðurinn Cyrus Capital Partners, Eldur sjálfur er næststærsti eigandinn, en hann segir marga íslenska aðila eiga stóran hlut í félaginu.

„Grænland er þekkt sem eitt helsta nýja námuvinnslusvæðið, með eitt elsta berg í heimi og svo er eyjan gríðarlega stór,“ segir Eldur en einnig kemur hann að rannsóknum á zinkvinnslu í landinu í gegnum annað fyrirtæki. „Landið er bara nokkur hundruð kílómetra frá Íslandi án þess að Íslendingar hafi tekið þátt í þessu að einhverju viti.“

Eins og áður sagði hafði félagið sem átti námuna áður hætt starfsemi þar, en náman hafði starfað á árunum 2002 til 2014.

„Þarna var unnið gull þegar heimsmarkaðsverðið var um 300 Bandaríkjadalir únsan, en í dag er það tæplega 1.250 dalir. Við höfum öll rannsóknar- og vinnsluleyfi í Nanortalik gullbeltinu, sem er afrakstur fimm ára vinnu, Þetta gefur okkur tækifæri til að skapa ekki bara eina námu, heldur er þetta eitt af fáum gullbeltum sem eftir eru í heiminum með svona hátt hlutfall af gulli á hvert tonn,“ segir Eldur og ber það saman við samsvarandi belti í Suður-Afríku og Kanada þar sem fjölmörg fyrirtæki eru um hituna.

„Vonandi komust við fljótlega á þann stað að geta framleitt úr þessari námu, til þess að geta haldið áfram að rannsaka þetta 20 kílómetra langa belti.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .