Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veitti í dag ábúendum fjögurra jarða Landbúnaðarverðlaunin 2008. Verðlaunin eru viðurkenning til þeirra sem á einn eða annan hátt tengjast landbúnaði og hafa sýnt áræðni og dugnað í verkum sínum og framkvæmdum, segir í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Þar segir ennfremur að þetta sé í 12. skipti sem verðlaunin séu veitt og viðurkenninguna hafi að þessu sinni hlotið:

  • Hjónin Eiríkur Snæbjörnsson og Sigfríður Magnúsdóttir á Stað í Reykhólasveit.
  • Árbæjarbúið en þar búa Þórður Jónsson og kona hans Ása Björg Stefánsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir systir Þórðar.
  • Þórisholt í Mýrdal en þar búa hjónin Guðni Einarsson og Halla Ólafsdóttir og Grétar  Einarsson og Sædís Íva Elíasdóttir.
  • Möðrudalur á Efra-Fjalli. Þar búa hjónin Vernharður Vilhjálmsson og Anna Birna Snæþórsdóttir og Vilhjálmur Vernharðsson og Elísabet Kristjánsdóttir.

Verðlaunagripirnir eru hannaðir af Ívari Björnssyni gullsmið og gerðir úr silfri og íslensku grjóti.