Kaup­höllin í New York, NYSE, kannar nú á­huga markaðs­aðila fyrir því að hafa opið fyrir pöruð við­skipti allan sólar­hringinn alla daga vikunnar.

Sam­kvæmt Financial Times eru eftir­lits­aðilar ekki á­nægðir með hug­myndina en NYSE hefur óskað eftir við­brögðum frá stærstu verð­bréfa­miðlurum Banda­ríkjanna.

Hug­myndin er sögð eiga rætur sínar að rekja til gagna­greiningar­deildar NYSE fremur en til stjórnar Kaup­hallarinnar en á­hugi fjár­festa er­lendis á að kaupa og selja bréf stór­fyrir­tækja eins og App­le og Nvidia utan opnunar­tíma er sagt vera meðal þess sem ýtt hafi undir hug­myndina.

Sam­kvæmt FT lítur NYSE svo á að hluta­bréfa­markaðurinn hafi orðið dráttar­valdur í við­skipta­heiminum þar sem hægt sé að stunda við­skipti með gjald­eyri, banda­rísk ríkis­bréf og fram­virka samninga með hluta­bréfa­vísi­tölur allan sólar­hringinn alla virka daga.

Þá eru raf­mynta­kaup­hallir opnar allan sólar­hringinn alla daga vikunnar.

Stór­aukin við­skipti al­mennra fjár­festa eftir Co­vid-19 spila einnig þátt í þessari mögu­legu breytingu en snjall­síma­forrit eins og Robin­hood bjóða not­endum upp á að kaupa og selja hluta­bréf allan sólar­hringinn og eru við­skiptin pöruð við þeirra eigið eigna­safn eða gegnum svo­kölluð „dark pools“.

Skoðana­könnun sem NYSE sendi á markaðs­aðila snýr að mestu að því hvernig verð­bréfa­miðlarar sjá fyrir sér að halda uppi nætur­vöktum starfs­manna á­samt því hvernig þeir sjái fyrir sér að verð­myndun yrði að nóttu til.