Kínverska fyrirtækið NFC er með í skoðun uppbyggingu álvers við Hafursstaði í Skagabyggð, en frá þessu er greint í Húnahorninu, fréttaveitu Húnvetninga .

Þar kemur fram að Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi, hafi kynnt hugmyndirnar, sem unnið hafi verið við frá síðasta sumri, á héraðsfundi sveitarstjórna í Austur-Húnavatnssýslu sem haldinn var 3. júní síðastliðinn.

Greindi Arnar frá því að um væri að ræða framleiðslu á 120 þúsund tonnum af áli sem nýtt yrði til framleiðslu á stöngum og vír. Möguleiki væri að stækka álverið um önnur 120 þúsund tonn síðar. Starfsmenn í álverinu yrðu um 240 og önnur 200 störf yrðu í þjónustustörfum tengdum álverinu.

Orkuþörf er áætluð 206 MW í fyrsta áfanga. Heildarfjárfesting í fyrsta áfanga er áætluð um 78 milljarðar króna og útflutningstekjur áætlaðar um 43 milljarðar króna á ári.