*

föstudagur, 25. júní 2021
Innlent 11. júní 2021 12:06

Slakað á fyrir þjóðhátíðardaginn

300 manns mega koma saman í næstu viku og tveggja metra reglan verður helmingi minni en áður.

Jóhann Óli Eiðsson
Reglugerðin byggir á tillögum frá sóttvarnalækni.

Tvöfalt fleiri mega koma saman frá og með miðvikudeginum í næstu viku og það sem meira er, þeir mega standa helmingi þéttar en áður. Þetta er meðal þess sem felst í breyttri sóttvarnareglugerð heilbrigðisráðherra.

Undanfarið hefur taktur í bólusetningu þjóðarinnar verið með ágætum og nú er svo komið að nærri 200 þúsund hafa fengið minnst eina sprautu. Þar af er rúmlega helmingur fullbólusettur. Sú staðreynd gefur tilefni til slökunar á aðgerðum.

Í breytingunni felst einnig að veitingastöðum verður heimilt að halda dyrum sínum opnum klukkustund lengur, það er til miðnættis en gestir hafa klukkustund til viðbótar til að koma sér út. Alls mega 300 koma saman og eins metra regla verður í gildi í stað tveggja.

Á sitjandi viðburðum, til að mynda leiksýningum og íþróttaviðburðum, verður engin nándarregla en gestum verður áfram skylt að bera sóttvarnagrímu. Börn fædd árið 2015 og síðar eru undanþegin fjöldatakmörkunum.

Í dag var einnig tilkynnt að sóttvarnaaðgerðir á landamærum yrðu óbreyttar til næstu mánaðamóta en eftir 1. júlí verði slakað á takmörkunum.