Sameiningarviðræður ástralska flugfélagsins Qantas og Malaysia Airlines hafa runnið út í sandinn. Á vef BBC kemur fram að það hafi verið sameiginleg niðurstaða beggja félaga að slíta viðræðum í bili.

Við sameiningu hefði orðið til fjórða stærsta flugfélag Asíu.

Qantas hefur í nokkurn tíma haft það á dagskrá að sameinast öðru flugfélagi eða ná frekari undirstöðu í Asíu með auknu samstarfi við önnur félög. Ástralskir fjölmiðlar hafa greint frá því að félagið hefði hug á því að reisa tengimiðstöð (e. hub) í Singapúr eða Malasíu.

Bæði flugfélögin voru rekin með tapi í fyrra. Malaysia Airlines hefur átt í nokkrum rekstrarvandræðum undanfarna 18 mánuði. Það kann því að skjóta skökku við að félagið fær afhent sína fyrstu Airbus A380 vél afhenta síðar í vor.