Genuity Science, sem áður hét WuXi NextCode, og varð til út frá þróunarverkefni hjá Íslenskri erfðagreiningu árið 2013, var í ágúst selt bandaríska fyrirtækinu Hibercell með töluverðu tapi fyrir hluthafa samkvæmt umfjöllun erlendra fjölmiðla.

Átök heimsveldanna Kína og Bandaríkjanna hafa komið illa við félagið sem varð til þess að því var skipt upp fyrir ári.

Hannes Smárason tók á ný við sem forstjóri félagsins í vor og leiddi það í gegnum söluna til Hibercell.

Hannes var einn af stofnendum NextCode árið 2013 sem var í eigu þáverandi og fyrrverandi hluthafa í Íslenskri erfðagreiningu. NextCode var svo selt kínversk-bandaríska fjárfestingafélaginu WuXi Pharma Tech á um 8,5 milljarða króna árið 2015. Eftir sameiningu við kínverskt erfðarannsóknarfélag varð til félagð WuXi NextCode sem Hannes stýrði þar til í upphafi árs 2018. Félagið óx hratt  og fjölgaði starfsmönnum úr 60 í 500 á þremur árum. Þá safnaði það um 47 milljörðum króna í hlutafé árin 2017 og 2018 frá stórum fjárfestingafélögum á borð við Temasek, Sequoia og Yunfeng Capital til að undirbyggja vöxt félagsins.Írska ríkið meðal fjárfesta.

Hafa dregið saman seglin

Mesta áherslu átti að leggja á uppbyggingu á Írlandi þar sem skapa átti allt að 600 störf og safna lífssýnum frá um 400 þúsund Írum eða hátt í 10% þjóðarinnar. Þá fjárfesti Ireland Strategic Investment Fund, fjárfestingasjóður í eigu írska ríkisins, um 8 milljörðum króna í félaginu, sem reynst hefur umdeilt á Írlandi. Áform félagsins hafa ekki gengið að öllu leyti upp og hefur félagið dregið saman seglin síðustu ár, þar á meðal á Íslandi. Þannig fækkaði ársverkum dótturfélagsins á Íslandi úr 77 þegar árið 2018 í 35 á síðasta ári.

Eftir breytingar á kínversku regluverki um erfðaupplýsingar var félaginu skipt upp í tvö félög sumarið 2020. Félagið utan Kína fékk nafnið Genuity Science, en það er með starfsemi í Bandaríkjunum, á Íslandi og Írlandi.

Skipt upp að kröfu Kínverja

Samkvæmt svörum írska ríkisfjárfestingafélagsins til þarlendra fjölmiðla hefur sjóðurinn fært niður stóran hluta af fjárfestingu sinni í Genuity Science. Fyrirtækið hafi þurft að takast á við verulegar áskoranir í rekstrinum á undanförnum árum. Aukin spenna á milli Kína og Bandaríkjanna, Covid-19 faraldurinn og uppskipting félagsins hafi haft neikvæð áhrif á reksturinn. Hluthafar í Genuity Science eignast hlut í HiberCell við kaupin.

Keppniautur Trump gagnrýndi félagið

Starfsemi félagsins hefur verið umdeild bæði á Írlandi og í Bandaríkjunum þar sem viðraðar hafa verið áhyggjur af söfnun erfðaupplýsinga sem og tengsla félagsins við Kína. Árið 2019 óskuðu bandarísku öldungadeildarþingmennirnir Charles Grassley og Marco Rubio eftir upplýsingum um hvort stofnun sem heyrir undir bandaríska heilbrigðisráðuneytið væri að greiða fyrir þjónustu WuXi NextCode og hvort samstarfið ógnaði þjóðaröryggi Bandaríkjanna í ljósi tengsla félagsins við Kína. Rubio var þriðji í forvali Repúblikana fyrir forsetakosningarnar árið 2016 en laut í lægra haldi gegn Donald Trump.

WuXi NextCode sagði gagnrýnina á misskilningi byggða. Fyrirtækið væri alþjóðlegt en með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, og væri í meirihluta eigu fjárfesta utan Kína og stjórnendur þess væru að mestu bandarískir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .