Niðurstöður úr könnun frá Seðlabanka Íslands gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 9,4% á yfirstandandi fjórðungi. Könnunin fór fram dagana 8. til 10. maí sl. og leitað var til 39 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði.

Þá gera markaðsaðilar ráð fyrir því að verðbólga hjaðni áfram og verði 6,3% eftir eitt ár og 4,5% eftir tvö ár. Þetta er meiri verðbólga en markaðsaðilar væntu í síðustu könnun í janúar.

Langtímaverðbólguvæntingar hækkuðu jafnframt milli kannana og gera markaðsaðilar ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 4% á næstu fimm árum og 3,5% á næstu tíu árum. Markaðsaðilar vænta þess einnig að gengi krónunnar muni breytist lítið á næstunni og að gengi evru gagnvart krónu verði 150 krónur eftir bæði eitt og tvö ár.

Aðspurðir um vexti þá telja markaðsaðilar að vextir bankans muni hækki um eina prósentu á yfirstandandi fjórðungi og verði 8,5%. Þá búast þeir við því að meginvextir taki að lækka á fyrsta fjórðungi næsta árs og verði 8,25% eftir eitt ár og 6% eftir tvö ár.

Að auki voru markaðsaðilar spurðir um mat þeirra á jafnvægisraunvöxtum og var þetta í fjórða skipti sem sú spurning hefur verið lögð fyrir þátttakendur. Miðgildi svara þeirra var um 1,9% og staðalfrávik 0,6 prósentur. Samanborið við ágúst 2014 var miðgildi svara þeirra 3%, í maí 2019 var það 1,25% og í ágúst 2020 var það 1%.