Seðlabanki Íslands hefur lækkað stýrivexti fjórum sinnum á þessu ári, nú síðast þann 20. maí þegar stýrivextirnir voru lækkaðir niður í 1% í fyrsta skipti. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að Peningastefnunefnd Seðlabankans haldi vöxtum óbreyttum við næstu vaxtaákvörðun þann 26. ágúst.

Við ákvörðunina mun nefndin styðjast við uppfærða þjóðhags- og þjóðhagsspá. Þar má nefna versnandi hagvaxtarhorfur í heimsbúskapnum frá síðustu ákvörðun en á móti þessu vegur meiri verðbólga og hærri verðbólguvæntingar, svo dæmi séu tekin.

„Við teljum ekki ólíklegt að vextir verði lækkaðir frekar á þessu ári en að nefndin kjósi að þessu sinni að bíða átekta,“ segir í hagsjá Landsbankans.

Verðbólguvæntingar hækkuðu nokkuð milli mars og júní, sem greinendur bankans rekja til veikingar á gengi krónunnar. Verðbólguvæntingar til 5 ára höfðu aftur á móti lítið breyst milli mars og júní. Þær voru óbreyttar í 3% hjá heimilum en lækkuðu úr 2,8% í 2,7% hjá fyrirtækjum.

Raungengi krónunnar síðustu mánuði hefur ekki verið veikara síðan í ágúst 2015. Meðaltal raungengisins milli apríl og júlí á þessu ári var um 23% veikara en þegar það var hæst í júní 2017.

Hagfræðideild Landsbankans telur hins vegar að stærð gjaldeyrisforða Seðlabankans gefi honum svigrúm til að halda stýrivöxtum lágum. Gjaldeyrisforðinn var í lok júlí 965 milljarðar króna sem er um tvöfalt hærra en heildarútflutningur íslenskrar ferðaþjónustu á síðasta ári.