Greiningardeild Íslandsbanka spáir að lækkun verðbólgu verði 1,5% og verði hún 6% í júní. Þeir þættir sem helst munu hafa áhrif eru styrking krónunnar um tæp 8% frá áramótum og vísbendingar um að íbúðaverð hafi hækkað nokkuð undanfarið. Ríflega helmingur styrkingar krónunnar átti sér stað í maí en möguleg hækkun á húsnæðisverði vegur upp á móti styrkingu gengisins. Húsnæðisliður vísitölunnar átti drjúgan þátt í hækkun hennar í maímánuði, að því er fram kemur í greiningu bankans.

Verðbólgan verður komin niður í 3,2% í árslok ef spá greiningar Íslandsbanka gengur eftir. Áhættuþættir spárinnar eru einkum þrír: Gert er ráð fyrir hægfara styrkingu krónunnar, hækkun nafnlauna getur til kostnaðarhækkunar ef kjarasamningar verða gerðir á árinu og þá geta gjaldskrárhækkanir opinberra aðila ásamt hækkun óbeinna skatta orðið meiri en greiningin gerir ráð fyrir.